Þórarinn Eldjárn

Söguleg skáldsaga Þórarins Eldjárns Brotahöfuð kom nýverið út í danskri þýðingu.


Þórarinn EldjárnÞórarinn Eldjárn hefur sýnt fram á færni sína á fjölmörgum sviðum bókmennta: í skáldsögum; smásögum; ljóðum, bæði bundnum og óbundnum; stuttum gamansögum; spakmælum; barnabókum; fræðiritgerðum;  leikritum og söngleikjum. Hann er fæddur árið 1949, nam bókmenntir og heimspeki við Háskólann í Lundi í Svíþjóð frá 1969 - 1972, íslensku við Háskóla Íslands 1972 - 1973, bókmenntir í Lundi 1973 - 1975 og lauk þaðan fil kand prófi. Hann hefur starfað sem rithöfundur og þýðandi frá árinu 1975.

Þórarinn vakti fyrst athygli sem ljóðskáld um miðjan áttunda áratuginn. Hann myndaði kjarna Listaskáldanna vondu, hreyfingu ungra framsækinna skálda, ásamt Steinunni Sigurðardóttur, Sigurði Pálssyni og Pétri Gunnarssyni. Þessi róttæki hópur ungskálda vann að því að endurnýja skáldamál íslenskra bókmennta með því að sækja í dægurmál og slangur í skáldskap sínum ásamt því að vísa í íslenskan menningararf með frjálslegu kæruleysi.

Fyrsta ljóðabók Þórarins Kvæði kom út árið 1974  og varð gríðarlega vinsæl.  Bókin tolldi vart í hillum bókabúða þegar hún kom út og hefur verið prentuð í fimm upplögum. Þórarinn naut þeirrar sérstöðu að yrkja háttbundin ljóð, stuðluð og rímuð, á meðan flest önnur ung ljóðskáld, í viðleitni sinni til að brjóta upp hefðbundin form kveðskapar, ortu í óbundnu máli. Það var einsdæmi að ungt og metnaðarfullt skáld gerði slíkt. 

Þórarinn hefur af einurð sinnt kveðskap sem sérstaklega er ætlaður börnum. Kvæði hans hafa birst í fjölmörgum barnabókum en þar má nefna bækurnar Óðfluga (1991), Heimskringla (1992), Litarím (1992) og Gælur, Fælur og Þvælur (2007). Þær hafa, líkt og önnur verk hans, notið mikilla vinsælda en í þeim njóta ljóð Þórarins góðs af bráðskemmtilegum myndskreytinum Sigrúnar Eldjárns, systur hans. Ljóðin hafa reynst vel við að örva málþroska barna þar sem tungumálið er ekki einfaldað um of, eins og tíðkast oft í bókum ætluðum börnum. Þórarinn lýsti því í viðtali við Morgunblaðið, í mars árið 2000, hvernig hann var alinn upp við að tungumálið væri skemmtilegt og möguleikar þess fjölþættir.[1] Í barnakvæðum hans má sjá hvar hann reynir að miðla af þessu uppeldi til yngstu kynslóðarinnar.

Frá upphafi vakti sérstök kímnigáfa Þórarins athygli lesenda, en hann hefur sjálfur sagt í viðtölum að hann sé fyrst og fremst húmoristi.[2] Verk Þórarins sækja ríkulega í þjóðmenningu Íslendinga, því hefur skáldskapur hans oft verið sagður þjóðlegur. Vissulega bera verk hans þjóðleg einkenni, en mikilvægt er að hafa í huga að þau eru ekki undir áhrifum rómantískrar þjóðernishyggju þar sem staðalmyndir og klisjur vaða uppi í upphafningu á íslenskum hetjuskap. Háðið og sérstök kímni Þórarins gerir það að verkum að þjóðleg fyrirbæri og persónur úr sögu Íslands eru sýnd í nýju ljósi. Í skáldskapnum teflir hann hvoru gegn öðru ólíkum sjónarhornum á sögu og menningu; hinu háfleyga og forna  andspænis dægurmenningu samtímans. Í þeim árekstrum sem verða milli jaðars og miðju menningarsögu í verkum Þórarins verður til forvitnileg og fræðandi sýn á fortíð og nútíð Íslendinga, sem umfram allt er skemmtileg aflestrar.

Þórarinn hóf feril sinn sem prósahöfundur á smásögum. Frá honum hafa komið fimm smásagnasöfn, það fyrsta Ofsögum sagt árið 1981. Í smásögum Þórarins má auðveldlega greina helstu höfundareinkenni hans þar sem forn íslensk sagnaminni tvinnast saman við hversdagsmenningu nútímans og smæstu atriði daglegs lífs eru hafin upp í fyndnum og stundum meinhæðnum frásögnum. Sögur Þórarins eru knappt skrifaðar og bera góðri frásagnartækni hans glögglega merki.

Þórarinn hefur samið þrjár sögulegar skáldsögur, Kyrr kjör (1983),  Brotahöfuð (1991) og Baróninn (1996). Í þeim má sjá hvar Þórarinn varpar ljósi á jaðarpersónur  íslenskrar sögu. Þar tekur hann til skoðunar athyglisverðar persónur sem eiga sér stoðir í raunveruleikanum en eiga það sameiginlegt að lítið sem ekkert er til af sögulegum heimildum um. Þórarinn nýtir sér það litla sem nothæft er af heimildunum sem sagan hefur skilið eftir og fyllir svo í gloppur og eyður svo úr verður fræðandi og skemmtileg frásögn með breyskum og áhugaverðum manngerðum.

Brotahöfuð

BlåtarnÍ Brotahöfði er rakin saga Guðmundar Andréssonar, lærdómsmanns og samviskufanga á 17. öld, sem sat inni fyrir mótmæli sín gegn Stóradómi, strangrar siðferðislöggjafar Danaveldis, í rammgerðasta fangelsi herraþjóðarinnar Bláturni. Bókin kom nýverið út í Danmörku, í þýðingu Björns Sigurbjörnssonar undir titlinum Blåtårn, og fékk glimrandi dóma frá gagnrýnendum. Søren Vinterberg, gagnrýnandi Politiken, segir bókina vera: „sannfærandi söguleg skáldsaga um raupandi Dani og Kvartandi Íslendinga [...] Guðmundur Andrésson segir frá örlögum sínum með áreynslulausu tungutaki samtíma síns og aðalatriðin afhjúpast smám saman hjá sagnameistaranum Þórarni Eldjárni.“ Kollegi hans Lars Bonnevie í Weekendavisen tekur í sama streng: „Maður heillast af margslunginni persónu hans [Guðmundar] í þessu játningariti sem skáldsagan læst vera. Þar skiptir einstæð stílgáfa Þórarins mestu og sannfærandi sálfræðileg sýn hans á persónur bókarinnar, en einnig fær þýðandinn lof fyrir að hafa leyst erfitt verkefni með bravúr. Hér er ekki sleginn falskur tónn, heldur er tónlistin hrein alla leið,“.


Undanfarin ár hefur bókin hlotið tilnefningar til ýmissa virtra bókmenntaverðlauna; hún er eina íslenska skáldsagan sem hlotið hefur tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Evrópu, auk þess hefur hún verið tilnefnd til Aristeion-verðlaunanna og hinna alþjóðlegu IMPAC-bókmenntaverðlauna. Frá því að bókin kom út hér á Íslandi fyrir þrettán árum síðan hefur hún verið gefin út í Bretlandi, Finnlandi, Frakklandi og nú síðast í Danmörku.


[1] Sjá Morgunblaðið, 11. mars 2000.

[2] Sjá Tímarit Máls og menningar 2/1991, bls. 42.

_____________________________________________________________________________________