Handhafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017

Krístín Eiríksdóttir, Unnur Jökulsdóttir, Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler

31. janúar, 2018

Krístín Eiríksdóttir, Unnur Þóra Jökulsdóttir, Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler hlutu verðlaunin í ár, en þau eru veitt í þremur flokkum; flokki fagurbókmennta, flokki barna- og ungmennabóka og flokki fræðibóka og bóka almenns efnis. Þetta er 29. árið sem verðlaunin eru veitt. 

Oll-fjogur

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin á Bessastöðum þriðjudaginn 30. janúar við hátíðlega athöfn. Verðlaun voru veitt í þremur flokkum; flokki fagurbókmennta, flokki barna- og ungmennabóka og flokki fræðibóka og bóka almenns efnis.

Elin,-ymislegt

Fagurbókmenntir

Kristín Eiríksdóttir hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt. Í umsögn dómnefndar segir að bókin sé vandlega úthugsuð og margslungin skáldsaga, „sem te‏flir fínlega saman ólíkri veruleikaskynjun persónanna í áhrifaríkri frásögn af hverfulu eðli minninga.“ Útgefandi JPV. 

Skrimsli-i-vanda

Barna- og ungmennabækur

Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler hlutu verðlaun í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Skrímsli í vanda. Í umsögn dómnefndar um bókina segir að hún sé litríkt og fallegt verk sem taki á viðfangsefni sem snertir okkur inn að kviku. „Skrímsli í vanda er marglaga saga fyrir alla aldurshópa, sem sómir sér vel í hinum glæsilega skrímslabókaflokki.“ Útgefandi Mál og menning. 

Undur-Myvatns

Fræðibækur og bækur almenns efnis 

Unnur Þóra Jökulsdóttir hlaut verðlaunin í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis fyrir verkið Undur Mývatns: um fugla, flugur, fiska og fólk. Í umsögn dómnefndar um bók Unnar segir að hún sé einstætt listaverk sem „miðlar fræðilegri þekkingu með ástríðu fyrir lífskraftinum og persónulegri sýn á það sem fyrir augu ber, jafnt óvægna grimmd sem blíðustu fegurð.“ Útgefandi Mál og menning.

Verðlaun og dómnefndir

Verðlaunaféð er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk, auk þess sem verðlaunahafar fá afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagrip eftir Jón Snorra Sigurðsson á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar. Verðlaunin eru kostuð af Félagi íslenkra bókaútgefenda.

Verðlaunaverkin voru valin af fjögurra manna lokadómnefnd en í desember á síðasta ári voru fimm bækur tilnefndar í hverjum flokki og má sjá þær allar hér. 

Lokadómnefndina skipuðu Helga Ferdinandsdóttir, Hulda Proppé, Sigurjón Kjartansson og Gísli Sigurðsson, sem gegndi stöðu formanns nefndarinnar.


Allar fréttir

Hátíðarkveðjur! - 19. desember, 2024 Fréttir

Starfsfólk Miðstöðvar íslenskra bókmennta óskar vinum og velunnurum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs - með von um notalegar bókastundir um hátíðirnar.

Nánar

Styrkir veittir til þýðinga á íslensku - seinni úthlutun ársins 2024 - 11. desember, 2024 Fréttir

Á árinu 2024 bárust samtals 72 umsóknir um styrki til þýðinga á íslensku. Veittir voru 48 styrkir að upphæð 17,1 mkr í tveimur úthlutunum; 8,8 mkr króna til 27 þýðingaverkefna í fyrri úthlutun ársins og 8,3 mkr til 21 verks í þeirri síðari.

Nánar

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans 2024 - 27. nóvember, 2024 Fréttir

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans 2024 voru kynntar 27. nóvember í Eddu, húsi íslenskunnar.

Nánar

Allar fréttir