Lestur hefur aukist og landsmenn lesa nú að meðaltali 2,3 bækur á mánuði

15. nóvember, 2019

Niðurstöður nýrrar lestrarkönnunar sýna að konur og barnafjölskyldur lesa mest og að hljóðbókin sækir á. Unga fólkið les mikið á öðrum tungumálum en íslensku og flestir fá hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum.

Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við helstu aðila á bókmenntasviðinu, gera könnun á viðhorfi Íslendinga til bóklestrar og fleira. Niðurstöðurnar sýna að lestur hefur heldur aukist, sérstaklega notkun hljóðbóka. Afkastamestu lesendurnir eru konur og barnafjölskyldur. Ungt fólk les mikið á öðrum tungumálum en íslensku. Yfirgnæfandi meirihluti telur opinberan stuðning við bókmenntir mikilvægan og greinilegt er að samtal um bækur lifir góðu lífi og hefur mikil áhrif á hvað fólk les.

  • Meðalfjöldi lesinna bóka var 2,3 bækur á mánuði í samanburði við 2 bækur að meðaltali í lestrarkönnun fyrir tveimur árum.
  • Svarendur með tvö eða fleiri börn á heimili lásu fleiri bækur en þeir sem ekki eru með börn á heimilinu.
  • Þátttakendur á aldrinum 18 til 24 ára lásu færri bækur en þeir sem eldri eru.
  • Lestur hefðbundinna bóka er minni í ár en í könnuninni 2018.
  • Hlustun á hljóðbækur er meiri nú en í fyrra.

  • Aldurshópurinn 18 til 35 ára les oftar en aðrir aldurshópar á öðru tungumáli en íslensku.

  • Mikill meirihluti þjóðarinnar eða um 76% svarenda telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. 

  • Yfir helmingur svarenda fær hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum.

Hér neðar má sjá nánari greiningu á niðurstöðum úr nokkrum spurningum (allar spurningarnar 7 eru neðst í fréttinni). Heildarniðurstöður könnunarinnar má sjá hér.

Könnunin, sem Zenter framkvæmdi, er gerð í samstarfi Miðstöðvar íslenskra bókmennta, Borgarbókasafnsins, Félags íslenskra bókaútgefenda, Hagþenkis, Landsbókasafns - Háskólabókasafns, Reykjavíkur Bókmenntaborgar og Rithöfundasambands Íslands. 

Konur og barnafjölskyldur lesa mest

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar höfðu um 66% svarenda lesið eða hlustað á bók/bækur á síðastliðnum 30 dögum. 

Meðalfjöldi lesinna bóka var 2,3 bækur í samanburði við 2 bækur að meðaltali í lestrarkönnun fyrir tveimur árum.

Konur lesa fleiri bækur en karlar, eða að jafnaði 3,1 bók og karlar 1,5 bók. Um 76% kvenna höfðu lesið eða hlustað á bók/bækur á meðan einungis 54% karla höfðu lesið eða hlustað á bók/bækur á sl. 30 dögum.

Þátttakendur á aldrinum 18 til 24 ára höfðu lesið færri bækur en þeir sem eldri eru. Þeir sem lokið höfðu grunnnámi í háskóla eða sveinsprófi höfðu lesið fleiri bækur en aðrir menntunarhópar.

Svarendur með tvö eða fleiri börn á heimili höfðu lesið fleiri bækur en þeir sem ekki eru með börn á heimilinu. Ekki var marktækur munur eftir búsetu eða menntun.

Boklestur_1573808964241

Mynd 1. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu margar bækur hefur þú lesið eða hlustað á síðastliðna 30 daga?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.


Notkun hljóðbóka eykst milli ára


Hljodbaekur-saekja-fram

Mynd 2. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á síðastliðnum 12 mánuðum? -Hefðbundnar bækur (innbundnar og kiljur), hljóðbækur og rafbækur.” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.


Um 80% Íslendinga höfðu lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, um 41% hlustað á hljóðbækur og um 31% lesið rafbækur. 

Lestur hefðbundinna bóka er marktækt minni í ár en í könnuninni frá 2018, en þá höfðu 86% svarenda lesið hefðbundna bók á síðastliðnum 12 mánuðum í samanburði við 80% í ár.

Hlustun á hljóðbækur var hins vegar marktækt meiri nú en í könnun frá árinu 2018, en þá höfðu 35% hlustað á hljóðbók á síðastliðnum 12 mánuðum í samanburði við 41% í ár.

Marktækur munur var á lestri hefðbundinna bóka eftir aldurshópum og höfðu 18 til 24 ára lesið hefðbundnar bækur sjaldnar en þeir sem eldri eru. Þeir sem höfðu lokið grunnnámi í háskóla eða sveinsprófi lásu oftar hefðbundnar bækur en aðrir menntunarhópar og þeir sem eru í hjónabandi oftar en þeir sem eru einhleypir eða í sambúð.

Ekki var marktækur munur á lestri á rafbókum á milli lestrarkannana í ár og í fyrra. 


Les þjóðin á íslensku eða öðru tungumáli?

Um 62% landsmanna les einungis eða oftar á íslensku en öðru tungumáli og eru það örlítið fleiri en á síðasta ári. Um 21% les jafnoft á íslensku og öðru tungumáli, 15% lesa oftar á öðru máli en íslensku og 2% lesa einungis á öðru tungumáli.

Lestur-eftir-tungumali

Mynd 3. Niðurstöður fyrir spurninguna Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.


Aldurshópurinn 18 til 35 ára les marktækt oftar á öðru tungumáli en íslensku, en aðrir aldurshópar, meðan lesendur yfir 65 ára er fjölmennasti hópurinn sem les fremur á íslensku en öðru tungumáli.

Karlar lesa frekar á íslensku en konur og 44 ára og eldri frekar en þeir sem yngri eru. Íbúar landsbyggðarinnar lesa frekar á íslensku en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu og þeir sem eru á eftirlaunum frekar en aðrir stöðuhópar.


Mikilvægi þess að bókmenntir njóti opinbers stuðnings

Meirihlutinn eða um 76% svarenda telja það mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. Marktækt færri telja mikilvægt að bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi samanborið við könnunina frá 2018, en þá töldu 79% svarenda það mikilvægt.

Konur telja opinberan stuðning mikilvægari en karlar, en ekki var marktækur munur eftir aldurshópum. Þeim sem höfðu lokið grunnnámi í háskóla eða sveinsprófi þótti það mikilvægara en öðrum menntunarhópum.

Opinber-studningur_1573808964219

Mynd 5. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.


Sjö spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur:

  1. Hversu margar bækur hefur þú lesið eða hlustað á síðastliðna 30 daga?“
  2. Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á síðastliðnum 12 mánuðum?“
  3. Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?“
  4. Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna (heimsóknir og rafræna þjónustu) á Íslandi á síðastliðnum 12 mánuðum?“
  5. „Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.“
  6. Hvar færð þú helst hugmyndir að lesefni?“
  7. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?“

Könnunin er gerð í samstarfi Miðstöðvar íslenskra bókmennta, Borgarbókasafnsins, Félags íslenskra bókaútgefenda, Hagþenkis, Landsbókasafns - Háskólabókasafns, Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO og Rithöfundasambands Íslands.

Zenter rannsóknir framkvæmdi könnunina og hún fór fram dagana 10. til 21. október sl. Úrtak: 2978 (einstaklingar 18 ára og eldri). Svarendur: 1216. Svarhlutfall: 51%

Hér má lesa heildarniðurstöður lestrarkönnunarinnar.


Allar fréttir

Hátíðarkveðjur! - 19. desember, 2024 Fréttir

Starfsfólk Miðstöðvar íslenskra bókmennta óskar vinum og velunnurum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs - með von um notalegar bókastundir um hátíðirnar.

Nánar

Styrkir veittir til þýðinga á íslensku - seinni úthlutun ársins 2024 - 11. desember, 2024 Fréttir

Á árinu 2024 bárust samtals 72 umsóknir um styrki til þýðinga á íslensku. Veittir voru 48 styrkir að upphæð 17,1 mkr í tveimur úthlutunum; 8,8 mkr króna til 27 þýðingaverkefna í fyrri úthlutun ársins og 8,3 mkr til 21 verks í þeirri síðari.

Nánar

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans 2024 - 27. nóvember, 2024 Fréttir

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans 2024 voru kynntar 27. nóvember í Eddu, húsi íslenskunnar.

Nánar

Allar fréttir