Hátt í 50% fjölgun umsókna um styrki til Miðstöðvar íslenskra bókmennta á árinu 2017

Á árinu 2017 úthlutaði stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta alls um 300 styrkjum í öllum flokkum, heldur fleiri en árið 2016. Hinsvegar fjölgaði umsóknum verulega milli ára, en til úthlutunar var sama upphæð og árið á undan, 68 milljónir króna.

8. janúar, 2018

  • Kapumyndir-hruga-okt-2017

Kapumyndir-hruga-okt-2017Metfjöldi umsókna um styrki til þýðinga á erlend mál

Á árinu 2017 bárust 119 umsóknir frá erlendum útgefendum, þar af 21 til þýðinga á íslenskum verkum á norræn tungumál og hafa þær aldrei verið fleiri. Þetta er talsverð aukning frá fyrra ári, eða 23%, en þá voru umsóknir um þýðingar á erlend mál 97 talsins. Til úthlutunar á árinu voru 15 milljónir króna auk 5,5 milljóna króna sem Norræna ráðherranefndin leggur til þýðinga úr íslensku á norræn tungumál. Í heild voru veittir styrkir til 96 þýðinga úr íslensku og hafa styrkir til erlendra þýðinga aldrei verið fleiri en í ár og má m.a. rekja það til sterks gengis íslensku krónunnar.

30% fjölgun umsókna um styrki til þýðinga á íslensku

Á síðasta ári barst Miðstöð íslenskra bókmennta 87 umsóknir um styrki til þýðinga á íslensku frá 20 umsækjendum. Heildarúthlutun á árinu var tæplega 18 milljónir króna til 44 þýðingaverkefna, en auglýst er tvisvar á ári eftir umsóknum. Fjölgun umsókna um þýðingastyrki hefur verið samfelld undanfarin ár, en til samanburðar var heildarfjöldi umsókna 67 á árinu 2016 og því nemur fjölgun umsókna nú um þrjátíu prósentum á ársgrundvelli. Árið 2016 var einnig úthlutað tæplega 18 milljónum króna en til 49 þýðingaverkefna og þá nam fjölgun umsókna um 63% frá árinu 2015.

Utgafustyrkir-2017Töluvert fleiri umsóknir um útgáfustyrki

Á árinu 2017 barst 101 umsókn um útgáfustyrk frá 56 umsækjendum og sótt var um tæpar 89 milljónir króna. Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta úthlutaði 23.5 milljónum króna til 45 verka í þetta sinn. Til samanburðar var í fyrra úthlutað 23.3 milljónum til 55 útgáfuverkefna en þá bárust 80 umsóknir um útgáfustyrki frá 28 aðilum og sótt var um 57 milljónir króna. Útgáfustyrkir eru veittir einu sinni á ári og er þeim ætlað að styðja við útgáfu og miðlun íslenskra ritverka.

Umsóknum um kynningarþýðingar fjölgar um 120%

Á síðasta ári var 45 kynningarþýðingastyrkjum úthlutað, að upphæð tæplega einni milljón króna, en alls bárust 47 umsóknir. Þetta er um 120% fjölgun, bæði umsókna og úthlutana á milli ára, en í fyrra bárust 22 umsóknir og 20 fengu styrk. Kynningarþýðingastyrkir eru veittir til þýðinga á nokkurra blaðsíðna sýnishorni úr íslensku verki sem ætlað er að nota í kynningu erlendis. Þeir sem geta sótt um eru innlendir og erlendir þýðendur, höfundar, útgefendur og umboðsmenn og má rekja fjölgunina á árinu 2017 til fleiri umsókna að utan.

Ferðastyrkir aldrei verið fleiri

67 umsóknir bárust um ferðastyrki á árinu og voru veittir 58 styrkir alls að upphæð 4.2 milljónum króna. Þetta er nokkur fjölgun umsókna frá árinu 2016 þegar 57 umsóknir bárust og veittir voru 43 styrkir. Höfundar, erlendir útgefendur og stjórnendur bókmennta- og menningarhátíða geta sótt um ferðastyrki í tengslum við útgáfu og kynningu íslenskra höfunda á verkum sínum erlendis.

Metfjöldi umsókna um NýræktarstyrkiPedro-og-Frida

Árið 2017 úthlutaði Miðstöð íslenskra bókmennta tæpri einni milljón króna í Nýræktarstyrki. Þá bárust alls 57 umsóknir en árið 2016 bárust 35 umsóknir. Tveir höfundar hlutu styrki að þessu sinni til útgáfu skáldsögu og ljóðabókar og var styrkupphæð hvors um sig 400.000 kr. Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, leikrit, ljóð, barna- og ungmennabækur, smásögur og glæpasögur og má segja að verkin endurspegli mikla grósku á bókmenntasviðinu. Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað árlega frá því þeim var fyrst úthlutað hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, árið 2008, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr.

Þýðendur í Gunnarshúsi

Árlega veitir Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands, þýðendum íslenskra bókmennta styrki til dvalar í Gunnarshúsi, auk ferðakostnaðar. Árið 2017 fengu fjórir þýðendur úthlutað dvalarstyrk fyrir árið 2018 en sjö umsóknir bárust. Árið áður fengu fimm dvalarstyrk og átta sóttu um.

Eins og sjá má er aukin eftirspurn í öllum flokkum en sama upphæð er til ráðstöfunar og árið 2016.

Heildaryfirlit styrkja Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2017 má sjá hér.


Allar fréttir

34 styrkir veittir til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál - 28. október, 2024 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir styrki til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál. 61 umsókn barst í þessari síðari úthlutun ársins. Veittir voru styrkir að upphæð 7.660.000 kr.

Nánar

Miðstöð íslenskra bókmennta flytur í Austurstræti 5 - 1. október, 2024 Fréttir

Auk Miðstöðvar íslenskra bókmennta má finna í sama húsi Tónlistarmiðstöð, Sviðslistamiðstöð, Myndlistarmiðstöð, Listahátíð í Reykjavík, Safnaráð og List fyrir alla. 

Nánar

Miðstöð íslenskra bókmennta hluti af evrópsku samtökunum ENLIT - 28. október, 2024 Fréttir

Samtökin eru skipuð 27 stofnunum um alla Evrópu sem eiga það sameiginlegt að styðja við og styrkja þýddar bókmenntir og stuðla að útbreiðslu þeirra. 

Nánar

Allar fréttir