Nýræktarstyrkina í ár hljóta Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson, Arndís Lóa Magnúsdóttir, Guðmundur Ingi Markússon og Halla Þórlaug Óskarsdóttir
Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað Nýræktarstyrkjum til fjögurra nýrra höfunda og nemur hver styrkur 500 þúsund krónum. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina.
Fimmtudaginn 4. júní, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta fjórum nýjum höfundum Nýræktarstyrki fyrir verk þeirra, en hver styrkur nemur hálfri milljón króna. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.
Nýræktarstyrkir eru veittir árlega fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.
Verkin sem hljóta viðurkenninguna í ár eru ljóðabækur, furðusaga og smásögur.
Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2020 hljóta eftirtalin verk og höfundar:
500 dagar af regni
Smásögur
Höfundur: Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson
Taugaboð á háspennulínu
Ljóðabók
Höfundur: Arndís Lóa Magnúsdóttir
Skuggabrúin
Furðusaga
Höfundur: Guðmundur Ingi Markússon
Þagnarbindindi
Ljóðsaga
Höfundur: Halla Þórlaug Óskarsdóttir
Hér má lesa nánar um verkin og höfundana.
Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem í ár eru þau Bergsteinn Sigurðsson og Erna Erlingsdóttir.
Þrettánda úthlutun Nýræktarstyrkja - rúmlega sextíu höfundar hafa hlotið viðurkenninguna
Þetta er í þrettánda sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa rúmlega sextíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi, árið 2008 - fyrir afar fjölbreytt verk. Meðal þeirra sem hlotið hafa Nýræktarstyrki eru höfundarnir Fríða Ísberg, Hildur Knútsdóttir, Arngunnur Árnadóttir, Dagur Hjartarson, Arndís Þórarinsdóttir, Sverrir Norland, Júlía Margrét Einarsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Halldór Armand Ásgeirsson og Pedro Gunnlaugur Garcia svo aðeins nokkur séu nefnd.
Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað jafnt og þétt frá því þeim var fyrst úthlutað árið 2008 hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr. Undanfarin þrjú ár hafa borist hátt í 60 umsóknir og styrkupphæðin er nú 500.000 kr.
Allar upplýsingar um Nýræktarstyrki og úthlutanir fyrri ára má finna hér.